75 frá því að Kaldbakur EA 1 kom heim

75 ár liðin síðan.

Kaldbakur EA 1. kom HEIM.

 

Fyrr á þessu ári, nánar tiltekið 17.  maí s.l voru nákvæmlega 75. ár liðin síðan nýsköpunartogarinn Kaldbakur EA 1. kom í fyrsta sinn til heimahafnar, Akureyrar.  

Með komu Kaldbaks má segja að Útgerðarfélag Akureyringa,  alltaf í daglegu tali kallað ÚA hafi fengið vængi, og í marga áratugi var ÚA ein megin burðarstoð í atvinnusögu Akureyrar, og þar unnu á löngum tíma margir Akureyringar  menn og konur ekki síður,  lífs sem og nú liðnir.

Blessuð sé minning þeirra.  

Það skein skært sólin á ÚA og fyrirtækið allt var á gullaldarárum þessa  best rekna útgerðarfyrirtækis landsins svo eftir var tekið.  

Það sem hvað verðmætast var að Útgerðarfélag Akureyringa var hf og í eigu marga bæjarbúa og með sanni sagt,  fyrirtækið OKKAR.

Komu togarans Kaldbaks þennan 17. maí dag árið 1947 var mikið fagnað og fánar víða við hún í  bænum þegar hið glæsilega fley sem svo sannarlega Kaldbakur  var lagðist að bryggju hér á Akureyri.

Bæjarblöðin á Akureyri  fögnuðu komu skipsins og lýstu því rækilega og á forsíðu Verkamannsins, blaðs sósíalista á Akureyri, var prentað kvæði eftir Kristján skáld frá Djúpalæk.

 

Í því var þetta m.a erindi:

Þú tengdur ert vorhugans vonum,

þú vængjaðir draumsýnir hans.

Það er byggt á þér lýðfrelsi landsins

og lífsvon hins fátæka manns.

Þú ert stolt okkar allra og styrkur.

Þú ert steinn undir framtíðar höll,

er skal rísa á fortíðar rústum

með reisn, sem hin íslensku fjöll.

 

Kaldbakur var fyrsti nýsköpunartogarinn er Ú.A. eignaðist, en á nokkurra ára tímabili fjölgaði síðutogurunum svokölluðu   og mest urðu þeir 5. talsins í eigu Ú.A. að Hrímbak meðtöldum.

Saga allra bakanna, en þeir  hétu Kaldbakur er fyrstur kom. Svalbakur EA 2. kom árið 1949. Harðbakur EA 3. kom árið 1950. Sléttbakur EA 4. kom árið 1953. og svo árið 1960. var Hrímbakur keyptur,  var um margt glæsileg og voru þeir mikil happafley flestir,   en rekstur þessara togara var gríðarlega mikilvægur  fyrir atvinnustarfsemi hér í bæ og togararnir fiskuðu fyrir fiskverkun ÚA og öfluðu bæði vel sem og hér mikillar atvinnu  og gjaldeyris fyrir þjóðina í heild sinni.

 

Á iðnaðarsafninu á Akureyri er til glæsilegt líkan af togaranum Kaldbak EA 1. sem Aðalgeir Guðmundsson vélstjóri á Harðbak smíðaði.

Tók það Aðalgeir 19. ár að smíða gripinn og þeir sem séð hafa líkanið segja að það eina sem setja má útá það, sé að það vanti bara áhöfnina, allt annað er eins og það var á skipinu sjálfu og að    marga mati er líkanið af Kaldbak eitt vandaðasta og fallegasta skipslíkan sem til er á landinu.

 

Svo til þess að halda áfram að rifja upp merkileg tímamót í atvinnu og iðnaðarsögu Akureyrar  þá einmitt á þessu ári nánar tiltekið þann 8. febrúar 2022 eru 50. ár liðin síðan Áki heitinn Stefánsson skipstjóri stýrði  fyrsta skuttogara Útgerðarfélags Akureyringa, Sólbak EA 5.  í fyrsta sinn til heimahafnar, Akureyrar og þar með hófst alveg nýtt tímabil í sögu Ú.A.

Enn það er önnur saga og bent er á glæsilega bók Jón Hjaltasonar „Steinn undir framtíðar höll“    sem  gefin var út í tilefni 50 ára afmælis Útgerðarfélags Akureyringa árið 1995.