Samþykktir Iðnaðarsafnsins

Stofnskrá fyrir Iðnaðarsafnið á Akureyri.

 

  1. grein. Rekstrarform.

Iðnaðarsafnið er sjálfseignarstofnun og lýtur rekstur hennar ákvæðum Safnalaga nr. 141/2011 og siðareglum Alþjóðaráðs (ICOM). Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

Safnið var stofnað 17. júní, 1998 og var í umsjá og vörslu Jóns Arnþórssonar, en hann naut vinsamlegrar ráðgjafar fagfólks Minjasafnsins á Akureyri.

Með stofnskrá sem undirrituð var árið 2004 var ákveðið að allar þáverandi eigur Iðnaðarsafnsins rynnu til sjálfseignarstofnunarinnar og yrðu stofnfé hennar. Stofnaðilar ásamt Jóni Arnþórssyni, eru Akureyrarbær, Eining-Iðja, Byggiðn-félag byggingamanna og Hollvinafélag Iðnaðarsafnsins.

 

  1. grein. Starfssvæði.

Lögheimili Iðnaðarsafnsins er á Krókeyri 6 á Akureyri og starfssvæði þess er aðallega Akureyri og nágrenni.

 

  1. grein. Hlutverk og tilgangur Iðnaðarsafnsins.

Hlutverk Iðnaðarsafnsins er að safna, skrá, rannsaka, varðveita og sýna muni er tengjast iðnaðarsögunni

Alla muni sem safninu berast skal skrásetja, merkja og varðveita við bestu möguleg skilyrði í sýningarsölum eða geymslum safnsins. Munum sem afhentir hafa verið safninu er óheimilt að farga nema ríkar ástæður séu til. Heimilt er að grisja safnkost á grundvelli grisjunaráætlunar sem höfuðsafn samþykkir. Þá er óheimilt að taka við gjöfum í safnið sem sérstakar kvaðir fylgja.

 

  1. grein. Starfsemi.

Í húsnæði safnsins á Krókeyri, skulu jafnan vera grunnsýningar sem gefa góða innsýn

í sögu og menningu iðnaðar á Akureyri á 20. öld, ásamt kynningu iðnaðarstéttanna í bænum. Þá er heimilt að gera ákveðnum menningarsögulegum þáttum iðnaðar skil í sérsýningum, bæði á safnssvæðinu og annars staðar á Akureyri þar sem aðstæður leyfa og stjórn safnsins ákveður.

Iðnaðarsafnið skal vera opið almenningi á auglýstum sýningartíma og rækja fræðsluhlutverk sitt m.a. með sýningum og leiðsögn.  Safnið skal sinna skólum á starfssvæðinu sérstaklega og hafa samvinnu við fræðsluyfirvöld í því efni.

 

5.  grein. Stjórn safnsins og safnstjóri.

Stjórn Iðnaðarsafnsins skal skipuð 5 mönnum sem aðilar að safninu tilnefna með eftirfarandi hætti:

Eining-Iðja stéttarfélag tilnefnir 1 fulltrúa, Byggiðn-Félag byggingamanna tilnefnir

1 fulltrúa, Bæjarstjórn Akureyrar tilnefnir 2 fulltrúa  og Hollvinafélag Iðnaðarsafnsins tilnefnir 1 fulltrúa.

Varamenn skulu tilnefndir af sömu aðilum og í sama hlutfalli.

Kjörtímabil stjórnar er 4 ár og er hið sama og sveitarstjórna. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skal hún skipta með sér störfum.

Stjórnin ræður safnstjóra, sem að öllu jöfnu skal hafa menntun á sviði menningarsögu og reynslu af safnastörfum. Stjórnin ákveður stafssvið hans með skriflegum starfssamningi. Safnstjóri ræður annað starfsfólk við safnið.

 

6.  grein. Fundir stjórnar, boðun og fundarsköp.

Stjórnin heldur fundi, þegar formaður eða safnstjóri telur þess þörf og einnig ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess.

Um boðun funda og fundarsköp gilda ákvæði Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 með síðari breytingum, eftir því sem við á og samkvæmt nánari útfærslu stjórnar Iðnaðarsafnsins.

Formaður stjórnar stýrir fundi.  Stjórnin kýs fundarritara úr sínum hópi eða ræður sérstakan fundarritara.  Formaður stjórnar skal sjá um að fundargerðir séu skipulega varðveittar.

 

 

7.  grein. Hlutverk stjórnar.

Hlutverk stjórnar er að sjá til þess að starfsemi Iðnaðarsafnsins sé í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og samþykktir sem varða starfsemi þess. Undir það falla meðal annars eftirtalin atriði:

  • Að ráða safnstjóra sem er ábyrgur fyrir daglegum rekstri Iðnaðarsafnsins.
  • Að móta stefnu Iðnaðarsafnsins, setja starfseminni markmið og fylgja þeim eftir.
  • Að móta starfsmannastefnu sem m.a. felur í sér ákvörðun um launamál í samráði við launanefnd sveitarfélaga.
  • Að hafa eftirlit með öllum rekstri á vegum Iðnaðarsafnsins, bókhaldi og fjárreiðum.
  • Að gera rekstraraðilum grein fyrir áætlunum um rekstur og framkvæmdir.
  • Að leggja fram skýrslu stjórnar Iðnaðarsafnsins, endurskoðaða ársreikninga þess og gera grein fyrir starfsemi og fjárhagsstöðu safnsins á aðalfundi.

 

8.  grein. Fjármál, rekstur og skuldbindingar.

Stjórn Iðnaðarsafnsins skal á fyrstu starfsmánuðum sínum gera rammaáætlun um starfsemi þess til næstu fjögurra ára. Tekjur safnsins eru framlög stofnfélaga, ásamt styrjum frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Þá aflar safnið sér einnig annarra tekna, meðal annars með innheimtu aðgangseyris eða sölu minjagripa. Reikningar Iðnaðarsafnsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Hagnaður af rekstri safnsins rennur til safnsins sjálfs. Stjórn safnsins gengur frá tillögum að fjárhagsáætlun hvers árs. Stjórnin skal setja safninu starfsáætlun fyrir hvert ár og sjá um að afla safninu tekna. Tillögur um rekstrargjöld og framlög til framkvæmda skulu koma fram í fjárhagsáætlun safnsins ár hvert.

( Samkomulag er um að Akureyrarbæjar leggi til húsnæði, hita og rafmagni endurgjaldslaust.)

 

9.  grein. Aðalfundur.

Aðalfund Iðnaðarsafnsins skal halda fyrir 1. apríl ár hvert. Safnstjóri Iðnaðarsafnsins skal boða til aðalfundar með minnst 7 daga fyrirvara og er hann lögmætur er ¾ hlutar kjörinna fulltrúa sitja hann.

 

 

Málefni á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi:

 

I.            Skýrsla stjórnar.

II.             Ársreikningur.

III.           Umræða um skýrslu stjórnar og afgreiðsla ársreiknings.

IV.          Kynning á starfsemi yfirstandandi árs.

V.            Endurskoðun fjárhagsáætlunar.

VI.          Tillögur að breytingum á stofnskrá eða viðaukum við hana.

VII.        Önnur mál.

 

10.  grein. Breytingar á stofnskrá.

Breytingar á stofnskrá þessari eru háðar samþykki þeirra aðila sem standa að rekstri Iðnaðarsafnsins. Óski einstakir aðilar eftir breytingum á stofnskránni skal senda tillögur þar um til stjórnar safnsins minnst þremur mánuðum fyrir aðalfund. Stjórnin skal gefa umsögn um breytingarnar og leggja fyrir aðalfund Iðnaðarsafnsins til samþykktar. Til að breyta stofnskrá Iðnaðarsafnsins þarf samþykki 3/4 hluta þeirra fulltrúa sem sitja aðalfundinn.

Einnig getur stjórn Iðnaðarsafnsins haft frumkvæði að breytingum á stofnskrá safnsins og skal hún þá send þeim sem standa að rekstri Iðnaðarsafnsins með minnst þriggja vikna fyrirvara. Óski stjórn Iðnaðarsafnsins eftir breytingum á stofnskrá má afgreiða hana á aðalfundi safnsins, en einnig er heimilt að boða til sérstaks fundar með eigendum Iðnaðarsafnsins til að breyta stofnskránni og þarf samþykki ¾ hluta þeirra fulltrúa sem sitja fundinn til að breyting nái fram að ganga.

Afgreiðsla aðalfundar Iðnaðarsafnsins, um breytingar á stofnskrá, skal send til allra aðila til staðfestingar og undirritunar.

 

11. grein. Niðurfelling starfsemi eða aðildar.

Vilji aðili að Iðnaðarsafninu hætta þátttöku sinni skal gera það með skriflegu erindi til stjórnar Iðnaðarsafnsins. Uppsögn miðast við næstu áramót eftir dagsetningu uppsagnar en tekur ekki gildi fyrr en um áramótin ári síðar, enda er nauðsynlegt fyrir starfsemi Iðnaðarsafnsins að fyrirvari uppsagnar sé langur, m.a. vegna fjárhagsáætlunar og annarrar áætlunargerðar, sbr. 8. grein. Hætti aðili að rekstri Iðnaðarsafnsins að greiða umsamin framlög missir hann allan rétt sinn. Stofnframlag til Iðnaðarsafnsins er ekki endurkræft.

Ef starfsemi Iðnaðarsafnsins leggst af skulu munir þeir sem að láni hafa verið fengnir, verða afhentir lögmætum eigendum. Safngripir skulu afhentir Minjasafninu á Akureyri í samráði við höfuðsafn, aðrar eignir skulu renna til minjasafnsins á Akureyri í samráði við ráðuneyti.

 

12. grein. Gildistaka.

Stofnskrá þessi tekur gildi þegar hún hefur verið undirrituð af fulltrúum þeirra sem eru aðilar að Iðnaðarsafninu og þegar ákvæði hennar sem lúta að samskiptum við Ríkissjóð og Þjóðminjasafn hafa hlotið staðfestingu Safnaráðs og menntamálaráðherra.