Nú árið er liðið.

Iðnaðarsafnið á Akureyri og starfsmenn þess senda öllum gestum sem og öðrum landsmönnum hugheilar nýjárskveðjur og þakka allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða.
 
Árið 2022 var að mörgu leiti hagstætt ár ef horft er til starfssemi Iðnaðarsafnsins. Vissulega truflaði heimsfaraldurinn í upphafi árs og miklar takmarkannir voru á starfi á fyrstu mánuðum ársins.
 
Þann 1 febrúar var ráðinn í fullt starf starfsmaður að safninu og er það sannarlega algjör forsenda að á safninu sé að minnsta kosti eitt stöðugildi til viðbótar við ómetanlegt framlag hollvina safnsins og það er alveg hægt að segja það með sanni að samvinna og samstarf þeirra aðila sem á safninu hafa unnið á árinu hefur verið með þeim hætti að betur verður ekki gert.
 
Í aðdraganda sveitarstjórnakosninga í vor var öllum framboðum boðið í heimsókn á safnið til okkar til að kynna safnið og ræða framtíð þess, en eins og allir vita er safnið ómetanleg heimild um sögu iðnaðar sem var á Akureyri og sannarlega blómlegur hér í bæ. Þetta voru góðar heimsóknir og væntanlegir bæjarfulltrúar voru allir sammála um mikilvægi þess að vernda þessa mjög svo merkilegu sögu.
 
Nú bíðum við bara eftir að hin fallegu orð þeirra ágætu bæjarfulltrúa verði að athöfnum og erum mjög bjartsýnir á að stuðningur bæjarins við safnið verði þess eðlis að við getum haldið áfram að vinna að því sem eldhuginn Jón Arnþórsson hóf fyrir tuttugu og fimm árum síðan, en Iðnaðarsafnið á einmitt 25 ára afmæli þann 17. júni á árinu 2023.
 
Á vordögum var tekin ákvörðun um að við starfsmenn Iðnaðarsafnsins tækum að okkur að hirða og sjá um lóðina við safnið og það er skemmst að segja að allt umhverfi safnsins hefur verið mjög vel hirt og fallegt í allt sumar. Samvinnan við starfsmenn framkvæmdasvið Akureyrabæjar hefur verið með miklum ágætum.
 
Í kringum sjómannadaginn í vor var ákveðið að hafa opið hús með áherslu á sögu útgerðar og skipasmíða á Akureyri og bjóða sérstaklega sjómönnum í heimsókn í vöfflur og súkkulaði.
 
Var þetta einkar vel til fundið og segja má að þessi ákvörðun okkar safnamanna að tileinka sjómönnum daginn sérstaklega í sumar á safninu hafi kveikt áhuga á að endurvekja hátíðarhöld hér í bæ vegna sjómannadagsins, og nú þegar er starfandi undirbúningsnefnd þar sem fulltrúi Iðnaðarsafnisns á sæti er að vinna að framkvæmd hátíðarhalda á sjómannadaginn 2023.
 
Í haust var loksins eftir langan aðdraganda ákveðið að rafvæða gámanna okkar á útisvæðinu og í dag er sannarlega hægt að segja að nú eigum við góðar geymslur.
 
Það hefur verið draumur okkar safnamanna að stíga skref inn í tækniheiminn og koma upp sjónvarpsskjáum til að hægt væri að sýna lifanidf myndir liðins tíma, en safnið á í fórum sínum mikið magn kvikmynda frá hinum ýmsu tímum og iðngreinum og með þeirri tækni sem til er í dag er hægt að kveikja nýtt líf i sögunni sem liðinn er og sannarlega glæða Iðnaðarsafnið nýrri ásýnd.
 
Með miklum stuðningi samtaka Iðnaðarsins hefur verið komið upp fjórum sjónvarpsskjáum á Iðnaðarsafninu og á hverjum degi er alltaf eitthvað sem sýnt á þeim frá liðinni tíð og hefur þetta mælst einkar vel fyrir. Einnig erum við í góðu samstarfi við Trausta Halldórsson kvikmyndatökumann sem hefur verið að færa gamalt myndefni okkar yfir í starfænt form til sýninga á safninu sem og erum við að vinna að því daginn langann að fá gamalt efni frá fólki sem á í sínum fórum demanta úr sögunni.
 
Stærsti safngripur Iðnaðarsafnsins, skipið Húni ll á afmæli á árinu 2023 en eins og allir vita er Húni smíðaður í skipasmíðastöð KEA sem stóð á Oddeyratanganum og í tilefni þessara tímamóta í frábæru samstarfi við hollvini Húna var hrundið af stað söfnum, sem reyndar stendur enn yfir( minni á söfnunarreikninginn) til að fjármagna smíði líkans af skipum og stefnt er að því að afhjúpa líkanið einmitt á 60 ára afmælisdegi Húna ll en þann 22 júní 1963 rann Húni ll í sjó fyrsta skipti.
 
Elvar Þór Antonsson líkanasmiður á Dalvík hefur tekið að sér að að smíða líkanið og verður það spennandi að sjá það verk verða að veruleika draumur sem hefur lifað í nokkur ár og nú er sá draumur að verða að veruleika.
 
Við safnamenn Iðnaðarsafnsins höfum verið duglegir að heimsækja önnur söfn hér í héraði og samvinna milli safnanna og samstarf er mikið og gott það ber svo sannarlega að þakka.
 
Nú árið er liðið í aldanna skaut.
 
Við starfsmenn Iðnaðarsafnsins viljum endurtaka miklar þakkir okkar til allra sem hafa heimsótt okkur, stutt okkur og sýnt safninu hlýhug og megi árið 2023 sem eins og að framan segir verður stórt afmælisár verða safninu til enn frekari sigra og söfnunnar sögu iðnaðar á Akureyri í máli ,myndum, munum, samtölum og ekki síst heimsóknum.
 
Verið ætíð velkomin á Iðnaðarsafnið á Akureyri.
 
Gleðilegt ár.
 
Hollvinir Iðnaðarsafnsins
Þorsteinn Einar Arnórsson.
Jakob Tryggvason.
Egill Sveinsson.
 
Sigfús Helgason safnstjóri.