Æviágrip - Jón Ingimarsson, formaður Iðju 1946-1981

Jón Ingimarsson
Jón Ingimarsson

Jón Kristján Hólm Ingimarsson var fæddur 6. febrúar árið 1913. Foreldrar hans voru Ingimar Jónsson iðnverkamaður og María Kristjánsdóttir. Bernskuheimili Jóns var Tóvinnuvélahúsið, eða Gefjunarhúsið, sem stóð í hallanum sunnan við Gefjunarverksmiðjuna. Það hús stendur nú við Byggðaveg. Fjölskyldan bjó á efri hæð hússins. Ingimar, faðir Jóns, starfaði á Gefjun í áratugi, frá 1912-1944.

    Árið 1930 hóf Jón störf í verksmiðjunni og starfaði þar til ársins 1946 eða í 16 ár. Á þessum árum hafði Jón áunnið sér slíkt traust og vinsældir meðal starfsmanna að þeir héldu honum samsæti á Hótel Norðurlandi og færðu honum góðar gjafir í þakklætisskyni fyrir góða viðkynningu og fórnfúsa þátttöku í félagslífi starfsfólksins. Jón starfaði síðan sem verslunarmaður hjá Pöntunarfélagi Verkalýðsins sem rak búð í Hafnarstræti 87 þar sem skóbúð er nú. Síðar starfaði hann sem vörubílstjóri hjá Stefni í nokkur ár. Árið 1954 gerðist hann starfsmaður fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna á Akureyri og átta árum síðar starfsmaður Iðju.

    Jón var einn af stofnendum Iðju félags verksmiðjufólks árið 1936 og tók frá upphafi virkan þátt í starfsemi félagsins. Hann var kjörinn gjaldkeri þess árið 1939 og síðar ritari. Árið 1946 var hann kjörinn formaður félagsins og gegndi því embætti til dauðadags eða í alls 35 ár. Þegar Landssamband iðnverkafólks var stofnað árið 1973 var hann kjörinn varaformaður þess. Jón sótti fjölmörg þing sambandsins og einnig þing Alþýðusambands Íslands í áratugi. Hann sinnti margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Iðju í gegnum árin, gekkst m.a. fyrir orlofsferðum félagsmanna og kom á fót Sjúkrasjóði Iðju. Hann ritstýrði Iðjublaðinu í 17 ár.

    Jón var atkvæðamikill í starfi Sósíalistafélags Akureyrar um árabil og síðar Alþýðubandalagsins. Hann sat í bæjarstjórn Akureyrar 1962-1970 (varamaður 1946-1962 og frá 1970-1978) og starfaði í ýmsum nefndum bæjarins. Jón vann ötullega að mörgum réttlætis-og framfaramálum. Hann var einn af stofnendum Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri og Styrktarfélags vangefinna. Hann vann enn fremur mikið starf í þágu aldraðra.

    Jón var ágætur fimleikamaður á sínum yngri árum og tók m.a. þátt í frægri sýningarför Leikfimifélags Akureyrar til Reykjavíkur árið 1932. Hann var lengi meðal fremstu skákmeistara Norðlendinga, tefldi á skákmótum Skákfélags Akureyrar og öðrum skákmótum í hálfa öld, m.a. í landsliðflokki á Skákþingi Íslands og á Norðurlandamóti. Hann varð skákmeistari Norðlendinga árið 1961. Jón sat í stjórn skákfélagsins í 27 ár og var formaður þess í 16 ár, eða lengur en nokkur annar. Árið 1973 gerði félagið hann að heiðursfélaga sínum. Þá sat hann í stjórn Skáksambands Íslands um skeið.

    Jón var mikill leiklistarunnandi. Hann tók virkan þátt í leikstarfsemi starfsfólksins á Gefjun á árunum 1941-1971. Hann starfaði einnig með Leikfélagi Akureyrar í fjóra áratugi, lék m.a. í mörgum uppfærslum þess á árunum 1942-1971. Formaður félagsins var hann á 50. afmælisári þess. Jón var oft fenginn til að skemmta á samkomum enda ágætur söngmaður. Hann lék vel á harmoniku. Eiginkona Jóns var Gefn Jóhanna Geirdal Steinólfsdóttir frá Grímsey. Þau eignuðust fimm börn.

Jón lést 15.2. 1981.

 Einn af samherjum Jóns skrifaði þetta um hann að honum látnum:

„Hann var hugsjónarmaður, viðkvæmur í lund og mátti ekkert aumt sjá og vildi hvers manns vandræði leysa. Það þarf varla að tíunda að oft hefur hann átt erfitt á ævinni vegna þess hve hann var yfirhlaðinn störfum en hann var glaðlyndur i eðli sínu og hláturmildur og ég minnist margra ánægjustunda með honum bæði i starfi og utan.“

Jón skáld frá Pálmholti skrifaði í minningargrein um nafna sinn: "Jafnvel klettarnir hrynja. Fallinn er Jón Ingimarsson formaður félags verksmiðjufólks á Akureyri, einn traustasti varðmaður fátæks fólks hér á landi.“