Fullveldisafmælið á Akureyri

Í gær voru kynnt 100 verkefni sem verða á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Kynningin var haldin í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík að viðstöddum fulltrúum verkefna af öllu landinu.
Kallað var eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins. Afmælisnefnd bárust 169 tillögur og valin voru 100 verkefni sem frá styrk á bilinu 3 milljónir króna til 100 þúsund króna.
Nokkrar stofnanir og einstaklingar á Akureyri hlutu styrk og þar á meðal var Iðnaðarsafnið sem setur upp sýningu um verksmiðjustúlkuna Júlíönu Andrésdóttur frá Höfða í Glerárþorpi, einnig Akureyrarstofa sem ætlar að halda fullveldisvorhátíð í Sundlaug Akureyrar, Listasafnið sem setur upp sýningu úti undir berum himni á verkum sem 10 ólíkir myndlistarmenn vinna í tilefni afmælisins,Amtsbókasafnið sem heldur sýningu um bæjarbraginn við upphaf fullveldis, Michael Jón Clarke sem setur upp fullveldiskantötuna "Land míns föður" í samstarfi við Hymnodiu og dr. Sigurð Ingólfsson, og Minjasafnið sem ætlar að standa fyrir fullveldisdögum í gamla bænum í Laufási við Eyjafjörð.