Iðnaðarsafnið og Byggiðn endurnýja samstarfssamning sinn

Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, safnstjóri Iðnaðarsafns…
Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, safnstjóri Iðnaðarsafnsins með nýja samninginn

Nýverið var skrifað undir nýjan þriggja ára samstarfssamning milli Byggiðnar – félags byggingamanna og Iðnaðarsafnsins á Akureyri, en fyrri samningur rann út um áramótin síðustu. Það voru Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar og Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, safnstjóri Iðnaðarsafnsins sem skrifuðu undir samninginn. Samstarfssamningar sem þessi eru ómissandi fyrir rekstur Iðnaðarsafnsins og Byggiðn hefur verið traustur stuðningsaðili um árabil.
Safnið geymir iðnaðarsögu Akureyrar og er einstakt á landsvísu því hvergi annars staðar er hægt að nálgast sögu iðnaðar á Íslandi á jafn heildstæðan hátt. Sérstaða safnsins felst ekki síður í að það á lifandi tengingu við samfélagið á Akureyri. Þónokkur hluti þeirrar starfsemi sem safnið geymir minningar um er ennþá til staðar í einu eða öðru formi í fyrirtækjum bæjarins.