Leikföng liðins tíma - falleg gjöf.

Leikföng liðins tíma.
 
Nánast á hverjum degi fáum við safnamenn tilkynningar og eða heimsóknir frá fólki sem vill gefa Iðnaðarsafninu eitthverja gamla hluti, og það sem er svo yndislegt að þessum gjöfum öllum fylgir svo hlýr og góður hugur til safnins okkar. Það metum við mikils.
 
Það væri að æra óstöðugan sem undirritaður sannarlega er, að flytja fréttir af öllum þeim dýrmætu hlutum er okkur berast.
 
En nú á dögunum barst okkur einkar falleg gjöf sem ég vil endilega deila með ykkur lesendur góðir og ekki síður benda ykkur á að koma á safnið og skoða.
 
Gígja Snædal er kona hér í bæ sem lengi bjó á Dagverðareyri hér rétt norðan Akureyrar sem kom með leikfang sem maður hennar Oddur Gunnarsson bóndi átti þegar hann var barn að aldri.
 
Gígja sagði að Oddur sem fæddur var árið 1943 og lést langt fyrir aldur fram árið 2008, hefði fengið þetta að gjöf þegar hann var 4 eða 5 ára gamall og alla tíð síðan hefði þetta leikfang verið til á þeirra heimili hjónanna og fylgt þeim og henni til þessa dags, og nú væri bara best að þessi fallegi hlutur yrði varðveittur á Iðnaðarsafninu, sem er eins og sjá má á myndunum tveir hestar að draga sleða.
Einkar fallegur gripur.
 
Þetta er akureyrísk smíð og sannarlega á heimavelli í safninu okkar og annað hvort er þetta framleitt í Leikfangagerð Akureyrar sem starfaði á árunum 1931 til 1941 eða fyrirtæki því er á eftir kom og nefnt var Leifsleikföng og starfaði hér í bæ í nokkur ár einnig.
 
Það eru einmitt svona gjafir eins og hér er nefnt og svona gjafir sem gera safnið okkar, Iðnaðarsafnið að þeim dýrmæta sagnfræðidemant fyrir sögu okkar Akureyringa og það ber svo sannarlega að þakka.
 
Við þökkum Gígju Snædal sem og öllum öðrum sem koma færandi hendi til okkar á Iðnaðarsafnið af heilum hug.