Merkisdagur.

Stór áfangi á Iðnaðarsafninu í dag.
 
Fyrir nokkru síðan sögðum við frá því að við værum að vinna að fjármögnun á kaupum á fjórum sjónvarpstækjum til að setja upp í Iðnaðarsafninu og með því glæða safnið meira lífi sem og gefa okkur tækifæri til að sýna lifandi sögu sem var, til viðbótar við glæsilegu safngripina sem við eigum.
Það er því með mikilli gleði og stolti sem við safnamenn tilkynnum að þessi fjármögnum tókst, og í dag eru komin upp fjögur ný sjónvörp og búið að tenga þau öll og frá og með deginum í dag er Iðnaðarsafnið á Akureyri tilbúið að sýna á fjórum skjáum sögur sem voru, sögu iðnaðardeildar sambandsins , sögu verslunar, sögu skipasmíða, og margar aðrar ýmsar sögur iðnaðar hér í bæ.
 
Iðnaðarsafnið á mikið magn af dýrmætum kvikmyndum á VHS videóspólum sem og 8 mm kvikmyndir sem við munum eftir sem efni og aðstæður leyfa okkur færa þær yfir í sýningarhæft form í þessum nýju tækjum okkar.
 
Við leitum nú til ykkar ágætu bæjarbúar um ef þið eigið í ykkar fórum kvikmyndir liðins tíma héðan frá Akureyri værum við mikið þakklátir að fá að færa þær yfir í stafrænt og þar með sýningarhæft form á safninu okkar.
 
Trausti Halldórsson kvikmyndatökumaður er nú þegar komin með töluvert magn af kvikmyndum frá safninu og er að færa þær yfir í stafrænt form fyrir okkur svo innan skamms munum við byrja að sýna sögur liðins tíma.
 
Svo vonum við að innann skamms verði hægt að sýna kvikmynd sem tekin var árið 1943 þegar Snæfellið EA 740 var sjósett frá Skipasmíðastöð KEA.
 
Eins og alltaf eru allir hjartanlega velkomnir á Iðnaðarsafnið og aðgangseyrir er mjög hóflegur. Safnið er opið er alla daga vikunnar frá kl 13.00 til kl 16.00.