Munir frá Iðnaðarsafninu marka gönguleið
Þessa dagana er unnið að mörkun og fegrun gönguleiðarinnar sem tengir Krókeyrina við innbæinn. Framkvæmdin er liður í samstarfi Akureyrarbæjar og safnanna á þessu svæði og er ætluð til að auka sýnileika safnanna og auðvelda göngutúrinn þeirra á milli.
Söfnin sem um ræðir eru Mótorhjólasafn Íslands, Iðnaðarsafnið, Minjasafnið, Nonnahús og Leikfangasafnið. Einnig verður unnið að því að auðvelda áframhaldandi göngu suður á Flugsafnið, en til þess þarf m.a. að gera gangbraut yfir Eyjafjarðarbraut.
Þrír stórir munir í eigu Iðnaðarsafnsins, tromla úr Sútunarverksmiðjunni á Gleráreyrum, áburðardreifari og síðast en ekki síst kranabíll frá Möl og sandi, hafa nú þegar verið færðir að göngustígnum. Við þá gripi verða settir vegvísar sem vísa fólki áfram inn á safnasvæðið á Krókeyri.
JSF