Örlítið erindi á Alþjóðlega safnadeginum 2020

A corner of a cabinet of curiosities, málað af Frans II Francken árið 1636 (wikipedia)
A corner of a cabinet of curiosities, málað af Frans II Francken árið 1636 (wikipedia)

  

Í dag er Alþjóðlegi safnadagurinn. Markmið dagsins er að kynna og efla safnastarf í heiminum. Í fyrra tóku 37.000 söfn þátt og sú tala hækkar ár frá ári. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 eru söfn nú hvött til að hafa viðburðinn rafrænan.

Yfirskrift Alþjóðlega safnadagsins í ár er „Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra“.

Okkur finnst þetta sjálfsagður hlutur í dag. En svo var ekki í upphafi safnamenningar. Fyrstu söfnin voru að mestu í einkaeigu þeirra ríku og velmegandi. Það var einungis elítan sem hafði aðgang að þeim. Slík fræðsla og menning var ekki ætluð almenningi. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Nú hafa allir (eða ættu að hafa) jöfn tækifæri til að fara á söfn. Ekki er spurt um stétt né stöðu. Í dag eru söfn hluti af samfélaginu og til fyrir samfélagið. Þau geyma minningar og sögu sem annast myndi fyrnast.

Söfn eru jafn misjöfn og þau eru mörg. En þó eru þrír megin flokkar: Listasöfn, náttúruminjasöfn og menningarminjasöfn.
Iðnaðarsafnið er í síðastnefnda flokknum. Ég vil þó ganga lengra og skilgreina það sem minningasafn (e. memorial museum). Það eru þau söfn kölluð sem segja sögu ákveðins tímabils, oft erfiðar sögur, t.d. af stríði og átökum. Tímabil sem áttu sér upphaf og endi. Iðnaðarsafnið segir þó alls enga harmsögu, heldur geymir minningar frá blómlegu tímabili í sögu Akureyrar. Það segir iðnaðarsöguna í formi muna, mynda og munnlegrar geymdar.

Iðnaðarsagan er enn í „lifandi minni“ okkar og mun verða það enn um sinn. Fjöldi fólks kemur á safnið og sér vélarnar sem þau unnu á og fatnaðinn sem þau saumuðu, gærurnar sem þau strekktu, gosflöskurnar sem þau drukku úr, líkön af skipum sem smíðuð voru á Akureyri o.s.frv. Fólk getur komið og endurupplifað löngu liðin ár og sagt áhugaverðar og fræðandi sögur frá þessu tímabili. Ef engar áþreifanlegar minjar hefðu varðveist um sögu iðnaðar, sögu uppgripa og sjálfbærni í tiltölulega smáu bæjarfélagi, myndi hún að mestu falla í gleymsku og dá.

Það er við hæfi að halda í heiðri, minningunni um harðduglegt fólk, foreldra okkar, afa og ömmur, langafa og langömmur, sem unnu baki brotnu, til að afla teknu fyrir sig og sína afkomendur.
Iðnaðarsagan er mikilvæg minning í okkar menningu, mikilvægur kafli í sögu okkar samfélags; okkar sameiginlega minni.

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir
Safnstjóri Iðnaðarsafnsins