Torfunefsbryggja 1907 2022 Memory.

Torfunefsbryggja 1907-2022. Memory.
 
Þessi dægrin eru allra síðustu forvöð fyrir þá sem vilja sjá gömlu Torfunefsbryggjuna á Akureyri, verktakafyrirtækið Árni Helgason EHF er að undirbúa rif á þessari rúmlega 115 ára gömlu bryggju, eða segja má restinni af henni því einu sinni var hún miklu stærri en við sjáum í dag.
 
Mun hún víkja fyrir nýjum viðlegukanti sem ná mun ca 20 metra sunnar í pollinn og mun þegar framkvæmdum líkur geta tekið minni skemmtiferðaskip upp að bryggju.
 
Saga Torfunefsbryggju er eins og segir hér ofar orðin 115 ára og rúmlega það, en bryggjan var upphaflega byggð árið 1905. af dönskum byggingameistara O.W. Olsen. En daginn eftir að hafnarnefnd tók við henni hrundi hún og var endurbyggð undir yfirstjórn Bjarna Einarssonar bryggjusmiðs og lauk þvi verki haustið 1907.
 
Það var á Torfunefsbryggjunni sem við Akureyringar tókum á móti Friðriki Vlll konungi árið 1907 ásamt fríðu föruneyti. Sú móttökuathöfn var einkar glæsileg og okkur Akureyringum til mikils sóma. Það staðfesta gamlar ljósmyndir frá þeim tíma.
 
Á Torfunefsbryggjunni var mjög hatröm vinnudeila háð þann 14. mars árið 1933 sem endaði með að fylkingum laust saman í svokallaðri Novudeilu. Lá þar við að slys yrðu á fólki og jafnvel eitthvað enn vera.
 
Og það var á Torfunefsbryggjunni sem komið var með þá sem létust í hörmulegu flugslysi í Héðinsfirði þann 29 maí árið 1947 og séra Pétur Sigurgeirsson þá ungur og nýr sóknarprestur okkar Akureyringa fékk það erfiða hlutverk að halda minningarstund er líkin voru borin í land, sú stund gleymist aldrei.
 
Eflaust mætti mikið telja hér upp til viðbótar úr sogu bryggjunnar og sannarlega hefur Torfunefsbryggjan okkar Akureyringa líka átt sínar góðu stundir og hefur þjónað okkur vel.
 
Það er einnig gaman að geta þess að í safnastefnu Iðnaðarsafnsins á Akureyri, í lið um fornleifar, númer 3.9. standa þessi orð:
 
"Samkvæmt lögum eru fornleifar allar minjar sem eru 100 ára eða eldri. Yngri minjar kunna þó engu að síður að vera áhugaverðar fyrir safnið og skulu forráðamenn þess vera vakandi gagnvart minjum sem kunna að vera fyrir hendi á Akureyri og stuðla að rannsókn og varðveislu þeirra í samráði við Minjavörð Norðurlands eystra og Minjavernd ríkisins. Dæmi um slíkar minjar eru gamla vatnsstíflan við minni Glerárgils, TORFUNEFSBRYGGJA og fleiri minjar um iðnað sem kunna að vera á söfnunarsvæðinu"
 
Til er þó nokkuð ritað um Torfunefsbryggjuna, mæling hennar og ljósmyndir sem og saga hennar í öll þessi ár, en það er með Torfunefsbryggju eins og svo margt annað hjá okkur, tíminn vinnur á því sem staðið hefur lengi, og þótt það sé vissulega eftirsjá í Torfunefsbryggjunni gömlu og ekki síst Torfunefsdokkinni sem var og hét er svæðið sem mun koma í staðinn glæsilegt og mun örugglega efla mannlífið við sjóinn og við Menningarhúsið okkar, Hof.
 
Nú tekur við nýtt tímabil og ný Torfunefsbryggja mun rísa og vonandi þjóna okkur Akureyringum nútíðar sem framtíðar jafn vel og nafna hennar sem nú mun eins og að ofan segir hverfa á allra næstu dögum.